Friday, September 27, 2013

Þetta samband verður seint í uppáhaldi!

Ég er ein af þeim sem svitna við tilhugsunina um sprautur. Svitna er þó sennilega vægt til orða tekið enda nokkuð eðlileg viðbrögð. Í mínu tilfelli fer mig að „verkja“ í æðarnar, fer að strjúka yfir handleggina á mér og fæ kuldahroll í hálsakotið – sem verður til þess að ég á erfitt með að hafa höfuðið kyrrt? Jah...allavega þá fer það ekki framhjá mörgum að mér mislíkar umræðuefnið ,,sprautur“. Einn af veikleikum mínum liggur því í ástarsambandi nála við æðar. Ég er hlynnt samböndum, finnst þau oftast falleg – en þetta samband verður seint í uppáhaldi (röksýni mín segir mér þó að við værum oft verr sett án þess).
Ég er með fimm göt í eyrunum , hef tvisvar látið gata á mér nefið og er með tvö tattoo. Þetta snýst því ekki um að mér finnist þetta vont. Alls ekki. Þetta er steikt fóbía sem ég á erfitt með að skilja. Eina rökræna ástæðan sem ég get fundið er að ég hafi verið heróínfíkill í fyrra lífi, verslast upp og dáið? Blessuð sé minning mín.  

Í dag þurfti ég að fara í magaspeglun. Mér til mikillar ánægju er mælt með að maður fái róandi í æð. Svo þarna lá ég í einhverju geðshræringarkasti á meðan hjúkrunarfræðingur og læknir reyndu að finna einhverjar sýnilegar æðar í mér. Mér til mikillar ánægju voru þær í feluleik í dag! Viðbrögð mín voru á þann veg að elskulegur hjúkrunarfræðingurinn var farinn að íhuga að hlífa mér við nálinni og bauð mér upp á þann kost að gleypa bara slönguna án deyfingar – enda margir svo sem lifað þann leik af. Það var sennilega á þeim tímapunkti sem læknirinn fann eina bláa og nálinni var komið fyrir. Áður en ég vissi af lá ég því á hliðinni, slefandi að horfa inní magann á mér á skjá upp á vegg. Ekkert mál miðað við nálina sem var í æðinni á mér. Get því staðfest að enginn þarf að óttast magaspeglunina sjálfa.

Í framhaldinu var mér svo rúllað inn í herbergi og mælt með því að ég svæfi deyfinguna úr mér. En ég var bara ekki þreytt enda upptekin af allskyns fallegum litum sem svifu um í kringum mig ef ég pírði augun rétt. Áhugavert. Síðan fóru litirnir að dofna og fönguðu því ekki áhuga minn á sama hátt. Það var þá sem ég mundi eftir að taskan mín var víst við hliðina á mér. Áður en ég vissi af var ég því búin að draga upp myndavélasímann(fíkill) og farin að smella myndum af ógeðs nálinni sem enn kúrði í mér, eins og við værum einhverjar vinkonur? Ég hafði verið vöruð við að mögulega myndi annarri konu vera rúllað inn í lúrherbergið og mætti hún í partýið fljótlega. Ég var því tilneydd til þess að fela símann, hætta að snerta litadýrðina í loftinu og þykjast vera eðlileg. Þá fannst mér hugmyndin um svefn fljótlega ögn meira spennandi, svona fyrst það fór líka svona vel um konuna hrjótandi í rúminu við hliðina á mér.

Það svo þegar ég vaknaði sem ég gat glaðst yfir sambandsmyndunum í símanum mínum...einstaklega hamingjuríkt samband :)





2 comments: