Monday, October 21, 2013

Hæ Brunate!Ég átti virkilega notalega helgi. Ég fór til Como og þaðan til fjölskyldunnar „minnar“ í Brunate. Ég hef ekki komið þangað í þrjú ár en leið eins og ég hefði verið þar í síðustu viku. Undarleg tilfinning (Brunate er afar heillandi, lítið ítalskt þorp upp í fjöllunum fyrir ofan vatnið Como á Norður Ítalíu. Það er því aðeins um klukkutíma ferðalag fyrir mig að skreppa þangað frá Milanó). Fátt hafði breyst þó ný funicolare (kláfur) hafi boðið mig velkomna. Göturnar voru enn jafn þröngar og ég dró andann ósjálfrátt að mér þegar ég mætti fyrsta bílnum. Amerísk poppmúsík ómaði enn út um sama gluggann þegar ég gekk framhjá og maðurinn á horninu var að snyrta garðinn sinn af gömlum vana. Reyndar gelti hundur nágrannans ekki á mig þegar ég fikraði mig framhjá húsinu hans, enda ekki sjáanlegur. Nýtt skilti var við fóboltavöllinn.

Ég viðurkenni að það hafði tognað talsvert úr börnunum sem ég passaði fyrir þremur árum en það breytti því ekki að áður en ég vissi voru þau öll búin að vinna mig í fótboltaspili. Stelpurnar tíndu handa mér gul blóm sem þær reyndu svo að koma, feimnislega fyrir í hárinu á mér. Noa, litla skottið, reyndi eins og hann gat að stríða mér stanslaust og sá elsti sýndi og sannaði að hann var kominn á gelgjuna.


Brunate fjölskyldan er sjervizkuleg* en ég hef gaman af því. Ítalski húsbóndinn drekkur hvorki vín né kaffi og skipar sig þar með í röð mjög sérstakra Ítala. Í morgunmat var enn hvítt brauð með ostum og sultum og í hádeginu gúffuðum við í okkur pasta með pestó, af gömlum vana. Oft gott að vita að sumt breytist seint! Það var hlýlegt að vera komin aftur og þau voru öll til í að skipuleggja fyrir mig komandi frí. Ég sé í hillingum góða helgi fyrir jól að baka smákökur með krökkunum. Kertaljós, arineldur og Alparnir út um stofugluggann. Ég er til!     

*ó þú elskulegi orðabókaleikur.

2 comments:

 1. Finnst ég næstum komin eð þér!! Lifandi og hlý lýsing á þessari heimsókn. Hér er fyrsti snjórinn kominn ekki bara föl að morgni. Allt í lagi samt mín vegna að hann stoppi ekki lengi.... Knúsandikveðjur <3

  ReplyDelete
  Replies
  1. Væri alveg til í smá snjó bráðum - skal alveg viðurkenna þann "veikleika" hjá mér ;) Notalegt.
   p.s. einn daginn kemur þú með mér amma!

   Delete