Wednesday, October 30, 2013

TO BE PLASTIC



,,It's the movies that really been running things in America ever since they were invented. They show you what to do, how to do it, when to do it, how to feel about it, and how to look how you feel about it." -Andy Warhol


,,When I got my first television set, I stopped caring so much about having close relationships." - Andy Warhol

,,What's great about this country is that America started the tradition where the richest consumers buy essentially the same things as the poorest. You can be watching TV and see Coca-Cola, and you know that the President drinks Coke, Liz Taylor drinks Coke, and just think, you can drink Coke, too. A Coke is a Coke and no amount of money can get you a better Coke than the one the bum on the corner is drinking. All the Cokes are the same and all the Cokes are good. Liz Taylor knows it, the President knows it, the bum knows it, and you know it."        -Andy Warhol
,,I never think that people die. They just go to department stores." - Andy Warhol

Í dag fór ég á Andy Warhol sýningu. Það var virkilega áhrifaríkt og gaman að sjá þessa samantekt af verkum hans enda hefur hann alltaf heillað mig að vissu leyti. Hér að ofan sáuð þið nokkur verk eftir Warhol sem ég gleymdi mér við að horfa á og velta fyrir mér (en hér eru myndir af fleiri djásnum sem ég sá m.a. í dag). Alltaf góð tilfinning að sjá verk, sem þú hefur velt mikið fyrir þér, með eigin augum. Ég tók því saman vangaveltur mínar og þá vitneskju sem ég hef hingað til aflað mér um þennan snoppufríða karakter. Skemmtilestur fyrir ykkur, krúttin ykkar! ;) 


Á tímum upplýsingaaldar, í hinum vestræna heimi, býr fólk sem er vant víðtækri mötun í gegnum sjónræna og stafræna miðla. Í dag er listin allsstaðar og nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að neyslumenningin hefur haft áhrif á sköpun listarinnar og jafnvel breytt sjálfu listhugtakinu. Í listum þarf að ríkja frelsi til þess að vinna með ólíkar hugmyndir og kenningar hvort sem þær eru byggðar á rökstuddri þekkingu, tilfinningum eða persónulegri sýn myndlistarmannsins.

Myndlistamaðurinn Andy Warhol (1928 – 1987) varð fyrst þekktur fyrir að mála myndir af teiknimyndasögum en varð síðar einn mikilvirtasti popplistamaður listheimsins. Popplistamenn fylgdu straumi samfélagsins og fjölluðu um það sem var vinsælt hverju sinni, hvort sem það voru vöruumbúðir eða teiknimyndaseríur. Warhol taldi mikil áhrif felast í fjöldaframleiðslunni og tækni hennar, ákveðið vald sem magnaði áhrifin. Sú aðferð listamanns að tileinka sér hluti og myndir sem ekki teljast listaverk og umbreyta þeim með einfaldri ákvörðun í listaverk mætti kalla listrænt eignarnám. Hvað þetta varðar var Warhol sem og aðrir popplistamenn frumkvöðull. Þeir tileinkuðu sér oft listaverk annarra að hluta eða í heild og nýttu til eigin listsköpunar með því að umbreyta efni, formi og jafnvel samhengi. Listamenn unnu með sitt eigið nærsamhengi. Andy Warhol spurði spurninga um ríkjandi hugmyndir í listinni.


Með tímanum færðist því Warhol út í fjöldaframleiðslu og yfirfærði hugmyndir sínar á silkiprent og dró úr listmálarahlutverkinu með því að notast mest við iðnaðarmálningu. Verk Warhols voru prentaðar ljósmyndir í mörgum litum sem hann tengdi við menningu sína og umhverfi. Ádeila á neyslumenningu, samfélagsleg málefni og bjarmann sem átti að umlykja fræga fólkið var ríkjandi. Fjöldaframleiddar myndir hans af leikkonunni Marilyn Monroe, konunni sem allar konur áttu að líkjast og allir menn að þrá, er jafnvel skírskotun í þá staðalímynd sem sífellt varð meira ríkjandi. Myndin sem samfélagið vildi fjöldaframleiða
Sjálfsmynd Warhols sem dragdrottning er einnig augljóslega undir áhrifum Marilyn Monroe, kyntáknið sem allir þráðu. Oscar Wilde gat þess eitt sinn í bréfi að: ,,Einungis yfirborðskennt fólk dæmir ekki eftir útliti. Leyndardómur heimsins er hið sýnilega, ekki hið ósýnilega(Sontag, 2005:20).“

Að mörgu leyti má segja að Warhol hafi tileinkað sér þá tækni sem auglýsingaheimurinn notast við enn þann dag í dag; sterka liti og skarpar myndir sem fanga augað. Warhol taldi mikil áhrif felast í fjöldaframleiðslunni og tækni hennar ákveðið vald sem magnaði áhrifin. Ef við sjáum reglulega mynd, sem í fyrstu vakti með okkur skelfilegar tilfiningar, þá hættir hún að hafa eins mikil áhrif á okkur. Við göngum jafnvel stundum svo langt að telja efni myndarinnar eðlilegt. Ljósmyndir deyfa oft tilfinningar hinnar beinu reynslu en þær tilfinningar sem þær kveikja innra með okkur tengjum við í daglegt líf. Ljósmynd af hlut getur því oft haft meiri áhrif á viðkomandi heldur en þegar hann upplifir hlutinn sjálfan.

Í dag erum við umvafin myndum af glæsilegu fólki og hefur gjarnan verið unnið með þær myndir í myndvinnsluforritum. Útlit persónanna er í raun óraunverulegt en við miðum okkur engu að síður við það. Fjöldaframleiðsla slíkra mynda hefur haft áhrif á okkur, áhrif sem margir telja skaðleg. Margir hafa gengið svo langt að segja að ljósmyndir spegli heiminn. Við leitumst við að uppfylla ákveðna ímynd, klæðum okkur eins, horfum á lífið út frá því sjónarhorni sem samfélagið veitir okkur. Jafnvel þeir sem telja sig einstaka, frábrugðna öllu öðru, eru engu að síður hluti af hópi. Í nútímasamfélagi gegnir ímynd mikilvægu hlutverki og mikilvægt er að hafa góða ímynd. Warhol reyndi að benda okkur á hvert stefndi með skýru listformi sínu, fjöldaframleiðslunni, og endurteknum ímyndum.

Verk Warhols einkennast því oft af pólitísku myndefni en hann vann oft út frá þeirri ímynd sem gerð hafði verið af raunveruleikanum sem birtist okkur daglega í gegnum sjónræna miðla. Hann beittu, á sínum tíma, nýjum og óvenjulegum aðferðum í listsköpun sinni. Aðferðum sem kröfðu eftirtektar. Í grein Susan Sontag Að sjá meira  bendir hún þó á að það sem mestu skipti sé skilningarvitundinn. Mikilvægt sé að hafa hana skýra og góða stjórn á henni. Með þeim hætti erum við fær um að sjá meira, heyra meira og skynja meira. Vitund okkar og skynmótun mótast í æ ríkara mæli af gríðarlegri myndframleiðslu samfélagsins. Nánd ljósmynda er því farin að hafa mikil áhrif á siðferði mannsins. Kalt auga ljósmyndavélarinnar frystir lifandi hluti og býr yfir þeim eiginleika að geta ýkt raunveruleikann. Ljósmyndir endurvinna raunveruleikann. Ný not eru fundin fyrir hluti og atburði með ljósmyndinni, þeim gefnar nýjar merkingar sem yfirtvinna greinarmuninn milli hins sanna og hins falska. Ljósmyndun getur fangað ,,hið áhugaverða“ en endanleg ástæðan fyrir þörfinni á að taka myndir af „öllu“ liggur í rökum neyslunnar sjálfrar, neyslumenningarinnar. Heimspekin og listin lifa í dag algjöru samlífi og geta ekki án hvor annarrar verið. Kenningin gerir listina mögulega.

Sontag, Susa. (2005). ritst. Hjálmar Sveinsson. Að sjá meira, Atvik, rit nr. 10. þýð. Gunnar J.        Árnason. Reykjavíkur Akademían, Reykjavík


1 comment:

  1. Þú nærð að koma orðum svo skemmtilega að hlutunum - þú og Andy kallinn eruð með það þegar kemur að tilvitnunum ;)

    ReplyDelete