Thursday, November 28, 2013

Hversdagsleikinn by Instagram













Hin hefðbundna skólavika er farin að taka á sig mynd. Sú staðreynd hentar mér vel! Hún einkennist af þriggja klukkustunda tímum og oft veglegum eyðum inn á milli. Það virkar því oft tilvalið að setjast niður með krökkunum úr bekknum á einhverjum huggulegum stað,  gæða sér á einhverju góðgæti og reyna, mögulega að læra.  Við erum loksins farin að fá talsvert af verkefnum og hjartað mitt farið að iða af spenningi.

Hversdagsleikinn í stórborginni Milanó er sveiflukenndur. Einn daginn étur hraðbankinn peningana mína og ég er peningalaus. Hann telur sér trú um að hann hafi látið mig fá þá og þar með heimild dagsins farin. Tilhugsunin um að reyna að útskýra stöðu mála fyrir skeytingarlausum ítölskum bankastarfsmönnum var á við að vera stödd í miðri eyðimörk. Asnalega bjargarlaus og örlítið pirruð? Ég ákveð því að eyða síðustu evrunni minni í vatn í næsta sjálfsala.  Það deit endar unaðslega þar sem hann smjattar á evrunni og ropar svo saddur og sæll framan í mig. Ég fæ þá á meðan tækifæri til þess að dást að útliti mínu í glerinu sem aðskilur mig enn frá vatnsflöskunni. Sofum á þessu…
Daginn eftir hefur blessað bankagreyið rankað við sér og greiðslan gengið til baka. Hamingjufiðringur – þó velstæður, sjarmerandi ítalskur bankastarfsmaður hefði örugglega heillast af yfirvegaðri framkomu minni, ég í framhaldinu flutt inn til hans og við lifað hamingjusöm til æviloka… Frestum því.


Þú þurrkar stírurnar úr augunum. Röltir í skólann. Brosir framan í alla þá eldri borgara sem á vegi þínum verða á meðan ipodinn þinn blastar jólatónlist. Í framhaldinu knúsar bekkurinn þinn þig í klessu, sem kaldlynda Íslendingahjartað er næstum því farið að sætta sig við.  Kennarinn þinn byrjar tímann á að vitna í fyrirlesturinn sem þú hélst nokkrum dögum á undan sem hlýjar. Þú kjamsar á mandarínu sem daðrar bæði við bragðlauka og lyktarskyn. Að skóladegi loknum ferðu í næsta hraðbanka sem þorir ekki lengur að gantast í þér (myndavéla-gæslumanninum sennilega ekki litist á blikuna síðast) og með seðlabunkann hleypurðu í næstu matvöruverslun. Þú þrjóskast seinasta kílómetrann heim með fulla tösku og innkaupapoka - af mat, með kassa af mandarínum á höfðinu. Í kvöld var hamingjuveisla! Kveðja, frá Ítalíu.

1 comment: