Sunday, January 12, 2014

Dagur 11

11.janúar, dagur 11 - Dagurinn sem útsölur Mílanóborgar fóru vel með mig.


Ég gæti kosið að segja glamúr útgáfuna af deginum. Skreytt hann með staðreyndum á borð við að við Sólrún sváfum út, vafðar inní sæng fram yfir hádegi. Klæddum okkur og héldum brosandi út í góða veðrið. Ákváðum að labba ekki niðrí miðbæ heldur taka metroið, laugardagslúxus;) Eyddum svo næstu fjórum klukkustundum á útsölum í Mango og H&M. Bókstaflega gleymdum okkur í útsölugleðinni og raðirnar í mátunarklefana hefðu getað verið lengri! Þegar ég kom mér fyrir í neðanjarðarlestinni á heimleiðinni hélt ég því á pokum fullum af gersemum. Meðferðis voru 4 kjólar, köflóttur jakki með leðurkraga, tvær töskur, skyrta, gallavesti og svart vesti, hálsmen, eyrnalokkar, teygjur og hárbönd ...jah svo eitthvað sé nefnt. Pokinn hennar Sólrúnar var ekki síðri. Við komum við í matvöruversluninni á götuhorninu heima til þess að fagna, keyptum breezera og freyðivín! Drifum okkur svo heim, þrifum herbergið okkar hátt og lágt - drukkum breezer og mátuðum ný föt. Eftir að hafa græjað okkur héldum við út að borða. Ungur maður kaus að verða samferða okkur hálfa leiðina, blístrandi á eftir okkur. Sjarmör. Fyrir valinu var ljúffengur sushi staður í grenndinni - freyðivín, hvítvín, sushibitar - allt rann ofan í okkur! 
Að gúfferíinu loknu rönkuðum við við okkur á McDonalds að fjárfesta í súkkulaðibitakökum. Nauðsynlegur eftirréttur. Heima tók hreint herbergið á móti okkur og vingjarnlegt bros Sherlock Holmes. Nóttinni var eytt með honum!

Ég gæti líka kosið að segja frá laugardeginum mínum svona....

Eftir 5 tíma svefn hringdi klukkan fyrir 08... framundan var þriggja klukkustunda ítölskutími. Af einhverjum ástæðum olli tilvera vekjaraklukkunnar minni æsingi en vanalega hjá íbúum Verbano. Það er því staðreynd að fjórum tímum seinna skriðu rauðhausarnir (tjahh einn er nú korter í blonde) framúr eftir afskaplega latan morgun. Það vottaði fyrir samviskubiti. Þeir klæddu sig, borðuðu eina gulrót - skelltu í sig grænu tei og kaffi og héldu af stað niðrí miðbæ. Neðarjarðarlestin varð fyrir valinu. Tíminn flaug. Eftir fjórar klukkustundir höfðu þeir komist yfir tvær verslanir. Sá eldri hafði mikið velt fyrir sér fjárfestingu í aðsniðnum beige blúndukjól. Á útsölunni var hann kominn niðrí 30 evrur sem þykir svo sem ekki háskalegt verð en sú staðreynd blasti við honum að blúndan var örlítið rifin á einum stað að neðan...og rennilásinn týpískur rennilás - passlega viðráðanlegur. Jæja, splæsi - varð að lokum ákvörðunin eftir að hafa athugað með frekari afslátt með neikvæðri niðurstöðu. Þessi mikilvægi kjóll fór því í pokahrúguna með hinum þremur kjólunum. Í framhaldinu var talsverðum tíma eytt í útsölugeðveikinni í H&M. Nokkrar flíkur keyptar og í mátunarklefanum skipt yfir í nýjan Mangokjól. Við kassann áttaði eldri rauðhausinn sig á því að sá yngri hefði gleymt að fjárfesta í kápunni sem hann hafði ætlað sér í Mango. SKANDALL. Sameiginleg niðurstaða var að halda þangað aftur. Þegar þeir svo prúðir gengu út úr Mango, kápu ríkari - fór þjófavarnakerfið allt af stað. Notalegt. Tveggja metra blökkumaður stóð yfir þeim og óskaði eftir að fá að grannskoða innkaupapokana. Það kom þó fljótt í ljós að lífvörður Mangogersemanna hafði þokkalega enskukunnáttu og gat sett sig inní aðstæðurnar, það róaði skjálfhentar hendur. Þjófavörnin virtist þó kjósa að koma eftir eigin hentugleik en upp úr krafsinu fannst að enn var þjófavörn á rifna blúndukjólaskrímslinu! Heppnin var þó til staðar því í allri útsöluklikkuninni hafði nótan ekki týnst. Þó kaupin hefðu verið gerð fyrir klukkutíma síðan og.. rauðhærðu grallararnir höfðu auðveldlega getað farið út með nýkeypta kjólinn, geymt hann þar, haldið aftur inní verslunina með pokann og afritið, smellt nýjum kjól ofan í og labbað út úr versluninni og leyft þjófavörninni að syngja. Damn... notaleg verslunaraðferð sem skilar. Allavega sá svarti sem allt í einu var farin að verða nokkuð myndarlegur staðfesti kaupin og vísaði niðrá kassa þar sem kjóllinn var settur frjáls, losaður við þjófavarnaskartið. Fangelsisvistun minni fyrir þjófnað frestað. 
Á leið í metroið fór þó hjartað aftur að tifa hraðar þegar rauðlokkurinn áttaði sig á því að kortaveskið var ekki með í för. Sú staðreynd blasti við að handtaskan var óheppilega opin svo auðveldlega hefðu liprir fingrur getað gerst frakkir. Í einhverri von var þó haldið til baka í verslunirnar. Gat það hafa gleymst við kassann í H&M ... að hafa tekið það upp í seinna skiptið í Mango var allavega ekki minnisstætt. Sú hugmynd kom þó upp að veskið hefði getað dottið upp úr töskunni í geðshræringunni í Mango þegar rauðlokkurinn færði dót úr veskinu sínu yfir í innkaupapokann. Nei, afgreiðslustúlkan sem hafði fyrir korteri síðan tekið þjófavörnina af vildi ekki kannast við grænt peningarveski ... en sá lífsreyndi kaus að gefast ekki upp og færði sig yfir til afgreiðsludömunnar á hinum endanum. Hún var sprækari og spurði afgreiðsludrenginn sem stóð spertur á milli þeirra. Hamingjubros - hann rétti fram veskið!
Að heimferð lokinni var haldið inní næstu matvöruverslun, fjárfest í fagnaðaráfengi, brauði og ávöxtum. Hafrar fundust ekki - en Ítalar virðast hafa klárað þá yfir jólin... við munum finna ykkur. Svolítið sorgmæddir og glorhungraðir röltu því rauðhausinn og slash rauðhausinn síðasta spölinn heim hvor með extra 3 kíló á sér. Þegar heim var komið tók þreytan á móti þeim ...þeir tóku til og í kjölfarið birti. Sennilega ekki að ástæðulausu því ástandið í herberginu var orðið talsvert.... Þeir dressuðu sig upp og héldu út að borða á notalegum sushi stað. Á leiðinni veitti ungur maður þeim áhuga, blístraði á eftir þeim. Rauðlokkurinn íhugaði að sýna áhuganum áhuga og taka við rekstri,,vinaarmbanda-fyrirtækisins" með honum. Kannski seinna pabbi.... 
Í upphafi kvöldverðarins náði ljósilokkurinn að sulla soya sósu yfir nýja hvíta kjólinn sinn. Takk laugardagur - og sushið var heldur salt þó það vendist með hverjum bita. McDonald's súkkulaðibitakökur voru því næst á stefnuskránni! Sherlock tók á móti þeim eftir að eldri rauðhausinn hafði þurft að sjá flugför heim um páskana hækka óeðlilega í verði. Unaður:*  Þar sem blondie-nan hafði séð Sherlock þáttinn vissi hún hvað hún var að gera en rauðhausinn sofnaði brjálaður úr spenningi og almennt pirraður. Takk laugardagur fyrir allt:* :) 

1 comment:

  1. Úff, þessi dagur! Ég er ennþá pirruð yfir soya sósunni..

    ReplyDelete