Monday, September 16, 2013

Mín kveðja til þín

Þegar þú áttar þig á því að einhver sem var þér náinn hefur kvatt þennan heim þjóta allar minningarnar og allar stundirnar sem þið áttuð saman í gegnum höfuðið á þér í belg og biðu. Þannig er það alla vega í mínu tilfelli.  Þú reynir að krefja þig um það skýra mynd að þú endar hálf dasaður, þreyttur og með höfuðverk.  Af hverju eru ekki allar minningar jafn skýrar þegar þú þarft á þeim að halda? Það er erfitt að sætta sig við eyðurnar sem þú ert skilinn eftir með. Mig rámar í stundir sem ég vildi núna að ég myndi betur. Kannski vegna þess að núna vil ég muna allt. Ég vil muna lagið sem þú sagðir að þér hefði alltaf þótt svo skemmtilegt sem ungri konu, í bílnum um daginn. Ég man það samt ekki. En ég man að það kom mér á óvart og við hlógum. Þú gast nefnilega alltaf komið mér á óvart.


Í byrjun mánaðarins kvaddi föðuramma mín okkur skyndilega, 66 ára að aldri. Það kom okkur öllum í opna skjöldu enda hafði hún verið mjög spræk síðasta árið. Ég man eftir alls kyns útgáfum af ömmu Þóru en sú sem er mér hvað skýrust þessa dagana er amma Þóra, fyrstu ár ævi minnar. Ég var fyrsta barnabarnið og fékk þá...alla vega fyrstu þrjú árin, alla athyglina. Það sem mér fannst hún alltaf spennandi. Amma var pía fyrir sunnan. Hún sá til þess að ég var komin með göt í eyrun áður en ég varð tveggja ára og er sú ferð ein af mínum fyrstu minningum. Hverjum finnst þægilegt að láta gata á sér eyrun? Fáum. En þetta var afmælisgjöfin frá ömmu Þóru - takk amma. Frá og með þeim degi gat ég þó skartað glitsteinum og það þótti ömmu sætt, og mamma vandist því ;)  Að heimsækja ömmu Þóru fyrir sunnan var mér ævintýr. Þegar ég var með henni elti ég hana um allt. Ég hljóp oft yfir til hennar frá afa og ömmu lang í Ásgarði, í Stjörnuheimilið, þar sem hún vann. Íþróttahöllin var alltaf full af fólki og er risastór í minningunni. Ég límdi mig við ömmu og fylltist alltaf stolti þegar hún sagði öllum að ég væri barnabarnið hennar að norðan. Hún gaf mér pakkanúðlur á kaffistofunni og ég fékk að gramsa í óskilamununum. Ég hef alltaf haft gaman af því að gramsa.


Amma Þóra gaf mér fyrsta naglalakkið mitt. Ég hafði elt hana inn í skranbúð í Hafnafirðinum og við rákumst á fjólublátt, glimmernaglalakk. Það varð mitt, sem og minn fyrsti Spice Girls diskur. Með árunum fóru svo fleiri barnabörn að fá að taka þátt í ömmudögunum en þeir enduðu oftar en ekki á því að við hámuðum í okkur KFC. Mikið sport. Það var hægt að plata ömmu í flest allt, þar á meðal bíóferð á Pókemon. Þar hraut amma við hlið okkar barnabarnanna í einn og hálfan tíma. Það var því ekki fyrr en á síðasta ári sem ég lagði til við ömmu að við færum aftur saman í bíó.

Ævi ömmu var skrautleg og bar hún merki þess. Þegar ég fór að eldast versnaði amma líka og sú amma sem ég hafði áður þekkt stjanaði ekki við mig á sama hátt. Brosin sem ég var vön voru ekki eins algeng. Því fékk ég að kynnast mörgum hliðum á henni sem ég er í dag mjög þakklát fyrir. Ég lærði að taka ömmu eins og hún var, göllum og kostum og það mótaði mig svo sannarlega. Sá aðra hlið á ástinni. Kraftur hugans er gríðarlegur og á samskiptum mínum við ömmu sá ég það oft skýrt. Ég lærði að sýna ömmu visst umburðarlyndi, reyndi að láta henni aldrei líða eins og ég væri að gagnrýna hana. Í ömmu bjó nefnilega viss styrkur sem við sem þekktum hana hvað best fundum fyrir. Amma átti erfitt með að gleðjast ef hún vissi af einhverjum sem fann til.

Þegar við kveðjum einstakling sem var okkur kær vill ákveðin glansmynd af honum verða eftir. Ég ætla að passa mig á að svo verði ekki því upplifun mín á sjúkdómi ömmu er mér jafn mikilvæg og lærdómsrík sem og ótal minningar um umburðarlyndi hennar og glettinn húmor. Amma Þóra var alltaf til í að fyrirgefa sínum allt – stundum var því gengið hart að henni, en þegar upp er staðið tel ég þetta vera eiginleika sem ég get enn lært betur á. Línan er fín á milli styrkleika og veikleika.

Síðustu tvö árin af ævi ömmu Þóru bjó ég hjá henni. Fyrsta árið var nokkuð erfitt og stundum var ég hrædd um hana. Seinna árið, síðasta árið hennar, var mjög gott. Þar höfðum við báðar áttað okkur betur á sambúðinni. Ég lærði að umgangast hana og sýna henni meiri hlýju, sem ég veit að hún kunni að meta. Ég fór einnig að taka eftir því að amma var líka að reyna að leggja sig fram við að skilja mig. Ég átti sífellt erfiðara með að fela fyrir henni ef mér leið eitthvað illa. Mér fannst notalegt að sjá hvað hún var meðvituð, við áttum nefnilega öll til að gleyma því stundum. Ég fann að ég gat alltaf leitað til hennar. Það var henni ákveðið öryggi að hafa mig þó líf mitt væri á fleygiferð. Kvöldin sem ég ákvað að faðma hana góða nótt eru mér enn kærari í dag. Ég fékk að kynnast ömmu mun nánar og það kom fyrir að ég gerði grín að sambúð okkar. Stundum er ekki annað hægt en að reyna að taka lífinu létt, þannig á maður líka auðveldara með að taka einstaklingum eins og þeir eru. Í ömmu bjó lúmsk kaldhæðni og hún hafði í raun húmor fyrir sjálfri sér, ómetanlegir eiginleikar, að mínu mati. Amma var ein af þessum áhugaverðu manneskjum lífs míns. 

Við amma Þóra kynntumst á annan hátt á þessum tveimur árum. Hún fór að deila með mér bernskuárum sínum og hvernig hún hefði kynnst afa mínum. Hún sagði mér frá því hvernig hún hafði verið litin hornauga þegar hún flutti á Húsavík með afa, mikið máluð með þykkan eyeliner. Amma Þóra hafði gaman af því að mála sig og sýndi mér oft hvernig hún hafði borið sig að við eyeliner ásetninguna. Hún fór svo að laumast í snyrtiveskið mitt öðru hvoru sem endaði með því að ég skrapp út í búð og keypti eins handa henni. Innra með ömmu bjó glanspía. Það eru t.d. ekki til megrunaraðferðir sem hún hafði ekki prófað og við hlógum oft saman að því þegar hún hafði sem ung kona látið móður sína sauma á sig plastgalla sem hún svaf í – svitnaði og varð gordjöss! Ef ég vildi svo gleðja ömmu þá elskaði hún ef ég eldaði, það þurfti ekki meira til. Hún varð svo alltaf ánægð þegar ég valdi að eyða föstudagskvöldum heima með henni, poppi og Idol. Þau kvöld urðu talsvert mörg. Pepsi max, eða annað sykurlaust gos og Nágrannar munu einnig alltaf minna mig á ömmu...sem og kapparnir Hörður Torfa og Helgi Björns ;)  


Sú minning sem er mér hvað sterkust þessa dagana er sennilega þegar við sátum við eldhúsborðið heima á Nónhæð í vor. Ég var á leið upp í stúdíó að taka myndir og amma skýtur á mig í glettni sinni að ég þurfi nú að taka almennilega mynd af henni, það sé ekki til nein mynd fyrir útförina hennar. Við hlógum og mér fannst tilhugsunin kaldhæðnisleg, að þurfa jafnvel að segja einhverjum að ég væri upptekin því ég væri að fara að taka mynd af ömmu fyrir útför hennar. Það varð því ekkert úr því. Það var svo í síðustu viku sem pabbi hringdi í mig og spurði hvort ég ætti einhverja almennilega, nýja mynd af móður sinni.

Útför ömmu Þóru verður næstkomandi föstudag, 20. september klukkan 15:00 í Hafnafjarðarkirkju.Lífið er sífellt að reyna að kenna okkur að meta hverja einustu stund sem okkur er gefin. Reynum að hlýða því.


2 comments:

  1. Frábærlega mælt frænka. Innilegar samúðarkveðjur til þín og ykkar allra.

    ReplyDelete