Thursday, November 7, 2013

Kveðjan mín

Ást er eitt af þessum stóru orðum sem við eigum að bera virðingu fyrir. Með þeim hætti viðhöldum við einlægri merkingu orðsins. 


Miðvikudaginn, 30. okt lést lang afi minn, Helgi Björnsson 91 árs að aldri. Hann hlaut þau forréttindi að fá að spila sína lífsrullu út til enda. Fyrir mér er samband afa Helga og ömmu Diddu lýsandi fyrir hugtakið ,,ást“. Þau stóðu saman í gegnum missi og erfið veikindi og voru því ætið til staðar fyrir hvort annað á bjartari morgnum. Afi og amma voru í raun ólík en báru virðingu fyrir sjónarmiðum hvors annars. Afi Helgi var alla tíð mjög ör og hefði sennilega, auðveldlega, verið greindur ofvirkur ef þær greiningar hefðu verið algengari í barnæsku hans. Það var ekki fyrir mörgum árum er ég var í heimsókn í Boðahlein að við amma heyrðum óhljóð ofan af þaki. Afi var þá mættur þangað enda óttaðist hann um ástand þakrennunnar,  þá kominn vel yfir áttrætt. - Hann datt reyndar seinna ofan af þakinu og okkur leist þá ekki á blikuna, en hann var fljótlega farinn að gantast yfir óförum sínum. Ég man glottið hans.

Afi var virkilega þrjóskur og þrátt fyrir að missa heyrn með tíð og tíma, held ég að hann hafi alla tíð kosið að heyra einungis það sem hann vildi. Hann heyrði og skildi Diddu sína þó alltaf. Samband afa og ömmu einkenndist af styrk og þolinmæði, virðingu og samstöðu. Hlýju. Afi var einn af þessum mjúku mönnum og rétti mér því oft ástarsögu sem var í uppáhaldi hjá honum ef ég þurfti að hvíla lúin bein í rúminu þeirra. Það fylgdi þeim hjónakornunum að hvar sem þau bjuggu færðist auðveldlega yfir mann ró. 

 Sá kraftur sem fylgdi afa og stöðuguleiki veitti öllum hans nánustu öryggi. Sem barn trúði t.d. faðir minn því...og eflaust fleiri, að afi ætti peningatré í garðinum sínum. Hann var einfaldlega einn af þessum sem börn litu upp til, þar á meðal ég. Að fylgja afa út í gróðhús í Ásgarði var ævintýraferð sem lauk með hringferð um garðinn. Það fór vel um rósirnar hjá afa og ömmu. Á uppvaxtar árum mínum áttum við það til að koma suður fyrir jól. Þá var afi Helgi ætíð búinn að setja upp seríur eftir kúnstarinnar reglum, allstaðar, og laumaðist til þess að kveikja á þeim fyrir okkur barnabörnin. Við stóðum alltaf agndofa yfir ljósadýrðinni en afi ljómaði ekki síður en seríurnar. Hann var fyrir fínerí....og fréttir stilltar í botn.  
Ég mun líka alltaf muna ferðirnar með afa og ömmu á Garðatorg. Það sem þær voru spennandi! - Í einni af ferðunum gáfu þau mér mína fyrstu myndavél, lítil snotur, blá filmuvél sem ég trekkti óspart.

Eftir að amma Didda kvaddi 15. desember 2011 varð sífellt minna eftir af afa. Hann hafði alltaf verið líkamlega vel á sig kominn og þannig fær um að sjá um ömmu, en síðustu árin hafði hún verið hugsanir hans. Það var því sorglegt að þurfa í sífellu að svara spurningum um hvar amma væri stödd, hvort við gætum farið með hann til hennar, afhverju hún væri ekki hjá honum? - Sorgin, óöryggið varð glampinn í augum hans. Þessi blessaða ást, fékk mig þá ósjaldan til þess að tárast. Oft gerði afi sér grein fyrir því að hann væri ekki í takt við tímann og var það jafnvel erfiðara, þá hikaði hann og átti það til að afsaka sig, reyndi að brosa yfir elli sinni. Stam hans versnaði með tímanum. Afa Helga leið alltaf betur ef hann hélt í hendina á manni á meðan hann talaði. Þær ótal mörgu stundir geymi ég eins og gullið mitt.

Mynd sem ég tók af afa á afmæli hans í fyrra
Síðustu tvö árin náði ég stundum í afa Helga fyrir ömmu mína Þóru, dóttur hans, upp á Hrafnistu og við buðum honum heim til okkar á Nónhæð í mat. Þessar ferðir voru mér ómetanlegar enda gat ég með þeim hætti hjálpað þeim báðum. Ellin er mér tilfinningarrík, af henni lærum við. Afi Helgi dáðist alltaf af því að ég rataði frá honum á Nónhæðina, ég var jú að norðan. Stundum hélt hann þó fastar í hendina á mér þegar ég skilaði honum aftur á Hrafnistu og lét mig lofa sér að ég rataði í herbergið hans, því sannleikanum samkvæmt vissi hann ekki hvar það væri.
Heimsókn mín til hans í vor er mér sérstaklega dýrmæt, hann var alltaf þakklátur fyrir innlitin. Tilhugsunin er því erfið að geta ekki kysst kinn hans, strokið honum um vangann í síðasta skiptið á morgun. En ég mun kveðja á minn hátt, með mynd af þeim afa Helga og ömmu Diddu, veifandi, brosandi á eftir mér. Kannski klisjukennt, en satt, nú eru þau saman á ný. 


4 comments:

 1. Einlægt og fallegt.

  ReplyDelete
 2. Fallegar og ómetanlegar minningar.
  Ást á þig.

  ReplyDelete
 3. Elsku Dóra, greinin þín er yndisleg og full af ást og virðingu. Þú kannt sannarlega fleira en að teikna og taka góðar myndir. Knús á þig elskan.

  ReplyDelete