Sunday, December 1, 2013

Hefnd jólalaganna

Í dag, 1 des hefndist mér fyrir jólalagagræðgina sem vanalega hrjáir mig frá miðjum október til ársloka.

Í dag var …og er víst enn (augnablik, tapaði mér í fagnaðarlátunum) hinn heilagi lærdómsdagur - Dagurinn sem kraftaverkin eiga að gerast. Sá dagur felur í sér að þú átt að vera í fullkomnu standi til þess að innbyrða allar þær upplýsingar sem settar eru fyrir framan nefið á þér. Gallinn virðist hins vegar vera sá að þú ein sérð um að skipuleggja þessa fróðleiks-hittinga.

Þess vegan hófst dagurinn á örlitlu snúsi, enda vekjaraklukkan látin hringja klukkan hálf ellefu, miskunnarlaust fyrirbæri! Síðan tók hafragrautsgerð við enda nauðsynlegt start á degi sem á að afkasta einhverju. Að því loknu var greinilegt að ég þyrfti að fara í ræktina – já hvað er upplagðara á lærdómssunnudögum en að vera fersk og tandurhrein eftir eftir átök í ræktinni og heita sturtu?
Ég þurfti ekki að spyrja mig að þessari spurningu, ég vissi að ég myndi örugglega læra betur….eftir 2 klukkustundir. Já tek andlitsmaskann með og öll kremin mín!

Þegar í Átakshúsið var komið teipaði ég samviskusamlega tónlistarundrið á mig, skellti mér í bol yfir og smellti rogginn á shuffle. Á djásninu mínu er jú, aðeins úrval góðra laga svo ég treysti shuffle til að ráða ferðinni. Ég var sennilega fullánægð með mig því í sunnudagshasarnum hafði ég gleymt því að um daginn hafði ég, full af metnaði, skellt þriggja tíma jólalagaplaylista af youtube inn á ipodinn - Það er jú svo notalegt að labba heim eftir skóla í myrkrinu með Bing Crosby og félaga í eyrunum. Ég var því nýbyrjuð að takast á við ímyndaða ítalska Alpa á hjólinu þegar jólalagalistinn tók völdin. Last Christmas ómaði í eyrunum á mér! Að því loknu tók Coca Cola lestin svo notalega á móti mér, óvænt lag á í raun ókönnuðum playlista. Vanalega hlýjar þetta einfalda stef mér en í þetta skiptið leið mér eins og Tim Allen í hlutverki Scott Calvin í Santa Claus. Sjáið fyrir ykkur atriðið þar sem læknirinn stendur stjarfur á meðan Calvin hamast á brettinu með jólasveinabumbuna í fararbroddi – jah, það var um það bil tilfinningin sem kom yfir mig.

,,Holidays are coming, holidays are coming ….. ‘tis the season, watch out, look around, something’s coming….” Áts, jólasveinabumban sló mig utan undir.

Þakkaði því fyrir að Coca Cola stefið hefði ekki verið lengra því ósköpin tóku enda. Við tók Here Comes Santa Claus í einlægum flutningi Doris Day. Þarna var hjólaferðin farin að taka í. Ég vildi því að ég hefði haft ögn meiri húmor fyrir því að hlusta á ,, Here comes Santa Claus, here comes Santa Claus, right down Santa Claus Lane…” á meðan ítalskt vöðvatröll í neon grænum wife beater bol, með tattooveraða upphandleggi í svörtum leðurgrifflum tók á öllu sínu fyrir framan mig. ,,He doesn't care if you're a rich or poor boy, he loves you just the same.....Cause Santa Claus comes tonight." Í fyrsta skiptið fannst mér þessi setning hljóma óþægilega.
Ah, bara 20 mín eftir af hjólaprógramminu… ,,It's the most wonderful time of the year…” 
Ég átti þetta skilið. Staran í saunanu nokkru seinna minnti á einbeitt liðdýr. Stjörf komst ég heim og er núna, átta tímum seinna að íhuga að kveikja á jólalögum. Það er jú fyrsti des….


2 comments:

  1. Hlæhlæ, þú getur gert þetta svooo innilega lifandi, mér fannst ég sjá þig þarna...og heyra jólalögin!!!

    ReplyDelete